Um mig
Hlekkir

Nýju heimkynn i skessunnar
Daginn fyrir 6 ára afmælið sitt heldur Sigga í berjamó í fjallið ofan við bæinn í sveitinni þar sem hún býr. Mamma hennar var að undirbúa afmælisgjöfina sem Sigga mátti auðvitað ekki sjá. Sigga verður fyrir því óláni að týna af sér öðrum skónum og við leitina finnur hún risastóran skó, sem líkist báti með flötum botni. Litlu síðar kemur í ljós að skórinn tilheyrir skessu sem býr í fjallinu því þegar skessan kemur haltrandi niður fjallshlíðina er agnarsmái skórinn hennar Siggu á annarri litlutá skessunnar. Sigga verður ekkert hrædd við skessuna því hún er svo vingjarnleg á svipinn. 

Það hefur heldur enginn ástæðu til þess að hræðast skessuna því alla tíð hefur hún lagt sig fram við að vera kærleiksrík og hjálpsöm. Eftir 6 ára afmælið hennar Siggu, sem skessunni var að sjálfsögðu boðið í, ljómaði skessan eins og sólin sjálf því nú vissi hún að hún yrði aldrei framar einmana. Hún var búin að eignast fullt af nýjum vinum sem gætu heimsótt hana í hellinn en Sigga er samt besta vinkona hennar. Siggu finnst ekkert skrítið að eiga vinkonu sem er næstum 400 ára gömul og heitir ekkert, en þannig er að skessan hefur svo lengi búið ein að hún veit ekki hvort hún heitir eitthvað, enginn hefur kallað á hana í nokkur hundruð ár.

Sigga og skessan hafa brallað ýmislegt saman og einu sinni fékk Sigga að vera í pössun hjá skessunni. Þær fóru oft í alls kyns leiki, bökuðu lummur og áttu marga mjög góða daga saman. Í þakklætisskyni saumaði mamma Siggu á hana nýjan kjól, sparikjól sem Skessan notar bara við hátíðleg tækifæri. 

Skessan eignaðist þetta heimili í september 2008. Bæjarstjórinn bauðst til að reisa henni bústað hér eftir að hún kom sjómönnum til bjargar í ofsaveðri á Suðurnesjum.

Samantekt
Svanhildur Eiríksdóttir bókmenntafræðingur

Heimildir
Bækur Herdísar Egilsdóttur um Siggu og skessuna sem eru 16 talsins.
1. Sigga og skessan í fjallinu, 2. Sigga í helli skessunnar, 3. Sigga og skessan í skóla
4. Sigga og skessan í sundi, 5. Sigga og skessan í eldsvoðanum,
6. Sigga og skessan hjá tannlækninum, 7. Sigga og afmælisdagur skessunnar í fjallinu,
8. Sigga og skessan í hafísnum, 9. Sigga og skessan í vorverkunum,
10. Sigga og skessan í umferðinni, 11. Sigga og skessan við tröllabrúðkaup,
12. Sigga og skessan í ferðaþjónustu, 13. Sigga og skessan í sólarlandaferð,
14. Sigga, skessan og leynigesturinn, 15. Sigga og skessan á kafi í snjó,
16. Sigga og skessan á Suðurnesjum.

Hellirinn

Hellirinn
Gerð hellisins Hönnun hellisins, framkvæmd og gerð skessunnar var í höndum listahópsins Norðanbáls. Við undirbúning verkefnisins leituðu þeir ráða hjá skessunni sem kom með ábendingar um gerð hellisins en í hann er notað efni úr nálægu umhverfi sem gerir hann samofinn landinu. Hellisveggirnir eru hlaðnir upp að skúta í berginu og er hellirinn alls 150 fermetrar að stærð. Yfir hleðsluna var smíðuð þakgrind úr rekaviðarbjálkum og á gólfinu er grjóthleðsla með völum sem skessan hefur dundað sér við að leggja. Hellirinn er skreyttur að hætti skessunnar með allskonar glingri, gærum, skeljum netabobbingum og fl. Hægt er að sjá skessuna í gegnum glugga þar sem hún situr og dormar í eldhúsinu.

Skessan
Skessan er í fullri stærð og situr sofandi í ruggustól í eldhúsinu. Skessan er hugverk Herdísar Egilsdóttur sem árið 1959 gaf út fyrstu bókina um Siggu og skessuna í fjallinu. Sögurnar hafa hlotið hylli barna og í tilefni af opnun hellisins á Ljósanótt 2008 kom út 16. bókin sem kallast Sigga og skessan á Suðurnesjum.

Listhópurinn Norðanbál
Norðanbál er listahópur sem staðið hefur að ýmsum listviðburðum á undanförnum árum m.a. í tengslum við ljósahátíð og vetrarhátíð í Reykjavík sem og Ljósanótt í Reykjanesbæ þegar sjávarguðinn Ægir var kallaður fram. 

Eftirtaldir aðilar styrktu verkefnið
Reykjanesbær, Sparisjóðurinn í Keflavík, Hitaveita Suðurnesja, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Norðlenska, Sjává, Eimskip, Skólamatur.is, Húsasmiðjan, ÍAV þjónusta ehf., Skólar ehf., Kynnisferðir, SBK, Hótel Keflavík, Helguvíkurmjöl, Verslunarmannafélag Reykjanesbæjar, Bónus, Minningarsjóður Vilhjálms Ketilssonar, Nesraf, SEES, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, Bústoð og Reykjaneshöfn. 

Viltu vera vinur minn? (skráning á póstlista – fá jólakort og fl) 
Skráðu þig sem vin minn og þá læt ég vita þegar eitthvað skemmtilegt er um að vera og það er aldrei að vita nema þú fáir eitthvað óvænt.

Sendu mér bréf...
Nánar
Kíktu á Facebook síðuna mína! Vertu vinur!