Hyskið mitt
Hlekkir

Þjóðsögur
Þjóðsaga er frásögn sem hefur gengið frá manni til manns meðal alþýðu oft á tíðum lengi, jafnvel öldum saman. Stundum er að finna sannleikskorn í sögunum en oft eru þær hreinn uppspuni. Í þjóðsögum eru gjarnan frásagnir af ýmiss konar yfirnáttúrulegum atburðum og verum. Flestar ef ekki allar þjóðir eiga sínar þjóðsögur.

Venjulega taka þjóðsögur miklum breytingum á meðan þær ganga sem munnmælasögur manna í millum. Í þjóðsögum birtast oft gamlar trúarhugmyndir og alþýðutrú, hjátrú og hindurvitni.

Oft eru persónurnar að takast á við ýmis náttúrufyrirbæri, óútskýrð fyrirbæri og reynt er að skýra mannlega hegðun. Í þeim er líka fjallað um vanmátt mannsins gagnvart náttúrunni og umhverfinu, drauga og forynjur, álfa, huldufólk og galdramenn og –konur. Í þjóðsögum má finna ágæta lýsingu á mannlífinu og lifnaðarháttum og hugsunarhætti á ákveðnum tímum.

Í grófum dráttum má segja að hlutverk þjóðsagna sé að mennta og skemmta. Til að mynda hafa velflestar þjóðsögur ótvírætt uppeldisgildi þar sem t.d. er varað við afleiðingum rangrar breytni. Skipulögð söfnun þjóðsagna hófst árið 1848 af þeim Jóni Árnasyni og Magnúsi Grímssyni og kom fyrsta safn þjóðsagna hér á landi, Íslensk ævintýri, út á þeirra vegum árið 1852.

(Wikibækur, safn af fjrálsum kennslubókum. Höf. Ásdís Haraldsdóttir)

- - - - - - - - - - - - - - - - -

Bergbúinn (Tröll sýna vinsemd)
Einu sinni bjuggu hjón nokkur innst í dal eða fram til heiða. Þau áttu eitt barn, lítið komið á fót, þegar saga þessi gerðist. Hjónin voru fátæk, en björguðust þó furðanlega við handafla sinn. Þau höfðu þann sið að loka aldrei bæ sínum, vetur né sumar, vor né haust. Fellilok var yfir uppgöngu og oki ofan á sem handgrip. Kýr voru undir loftinu.

Eitt kvöld sat húsfreyja þar ein og andspænis uppgöngu, er þá stóð opin. Þegar minnst varði, kemur mjög stórvaxinn maður upp stigann og sezt þegjandi á loftsnöfina. Höfðu hjón engan séð hans líka að stærð, og var hann þó alls eigi tröllslegur. Enginn yrti á hann, og hann sat þar alla kvöldvökuna án þess að mæla eitt orð. Stóð þeim geigur af honum. Um háttamálin leggur húsfreyja barnið út af sofandi. Svo tekur hún stóran tréask, smeygir sér með hann ofan, undir loftið, mjólkar hann fullan og setur þegjandi fyrir gestinn. Hann tekur askinn þegjandi, rennir út úr honum og hvarf þegjandi út.

Næsta kvöld kom hann, settist á sama stað og sat þar þegjandi, þangað til konan gaf honum fullan askinn af mjólk, Þriðja kvöldið kom hann og sat þar vökuna út, unz hann haf ði lokið úr þriðja askinum. En þá rauf hann loksins þögnina með þessum orðum: „Þökk hafið þið, góðu hjón, fyrir mjólk ykkar.
Í engu fæ ég að sönnu goldið góðvild ykkar. Þó spái ég því og mæli svo um, að þið munuð farsæl verða og aldrei sitja í skorti, En þiggið eitt heilræði af mér. Látið aldrei bæ ykkar standa opinn að staðaldri, sízt yfir myrkar nætur, því að margir eru hér til í grenndinni, sem þó eru verri en ég. Er það gott og gilt orðtak, þótt fornt sé, að margur leyfir sér um opnar dyr inn að ganga."

Að svo sögðu leit hann vingjarnlega til þeirra og hvarf út. Það var ætlun þeirra, að hann hefði verið bergbúi eða blendingur nokkur af betra tagi. Upp frá þessu læstu þau bæ sínum á hverri nóttu og kom þar síðan enginn óþekktur, óboðinn inn.

(Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar)

- - - - - - - - - - - - - - - - -

Búkolla
Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu. Þau áttu einn son, en þótti ekkert vænt um hann. Ekki voru fleiri menn en þau þrjú í kotinu. Eina kú áttu þau karl og kerling; það voru allar skepnurnar. Kýrin hét Búkolla. Einu sinni bar kýrin, og sat kerlingin sjálf yfir henni. En þegar kýrin var borin og heil orðin, hljóp kerling inn í bæinn. Skömmu seinna kom hún út aftur til að vitja um kúna. En þá var hún horfin. Fara þau nú bæði, karlinn og kerlingin, að leita kýrinnar og leituðu víða og lengi, en komu jafnnær aftur.

Voru þau þá stygg í skapi og skipuðu stráknum að fara og koma ekki fyrir sín augu aftur, fyrr en hann kæmi með kúna; bjuggu þá strák út með nesti og nýja skó, og nú lagði hann á stað eitthvað út í bláinn. Hann gekk lengi, lengi, þangað til hann settist niður og fór að éta. Þá segir hann: „Baulaðu nú, Búkolla mín, ef þú ert nokkurs staðar á lífi."

Þá heyrir hann, að kýrin baular langt, langt í burtu.

Gengur karlsson enn lengi, lengi. Sest hann þá enn niður til að éta og segir: „Baulaðu nú, Búkolla mín, ef þú ert nokkurs staðar á lífi."

Heyrir hann þá, að Búkolla baular, dálítið nær en í fyrra sinn.

Enn gengur karlsson lengi, lengi, þangað til hann kemur fram á fjarskalega háa hamra. Þar sest hann niður til að éta og segir um leið: „Baulaðu nú, Búkolla mín, ef þú ert nokkurs staðar á lífi." Þá heyrir hann, að kýrin baular undir fótum sér. Hann klifrast þá ofan hamrana og sér í þeim helli mjög stóran. Þar gengur hann inn og sér Búkollu bundna undir bálki í hellinum. Hann leysir hana undir eins og leiðir hana út á eftir sér og heldur heimleiðis. Þegar hann er kominn nokkuð á veg, sér hann, hvar kemur ógnarstór tröllskessa á eftir sér og önnur minni með henni. Hann sér, að stóra skessan er svo stórstíg, að hún muni undir eins ná sér.

Þá segir hann: „Hvað eigum við nú að gera, Búkolla mín?"

Hún segir: „Taktu hár úr hala mínum, og leggðu það á jörðina."

Hann gjörir það. Þá segir kýrin við hárið: „Legg ég á, og mæli ég um, að þú verðir að svo stórri móðu, að ekki komist yfir nema fuglinn fljúgandi."

Í sama bili varð hárið að ógnastórri móðu.

Þegar skessan kom að móðunni, segir hún: „Ekki skal þér þetta duga, strákur. Skrepptu heim, stelpa," segir hún við minni skessuna, "og sæktu stóra nautið hans föður míns. „Stelpan fer og kemur með ógnastórt naut. Nautið drakk undir eins upp alla móðuna. Þá sér karlsson, að skessan muni þegar ná sér, því hún var svo stórstíg.

Þá segir hann: „Hvað eigum við nú að gera, Búkolla mín?"

"Taktu hár úr hala mínum, og leggðu það á jörðina," segir hún.

Hann gerir það. Þá segir Búkolla við hárið: „Legg ég á, og mæli ég um, að þú verðir að svo stóru báli, að enginn komist yfir nema fuglinn fljúgandi."

Og undir eins varð hárið að báli.

Þegar skessan kom að bálinu, segir hún: „Ekki skal þér þetta duga, strákur. Farðu og sæktu stóra nautið hans föður míns, stelpa," segir hún við minni skessuna. Hún fer og kemur með nautið. En nautið meig þá öllu vatninu, sem það drakk úr móðunni, og slökkti bálið. Nú sér karlsson, að skessan muni strax ná sér, því hún var svo stórstíg.

Þá segir hann: „Hvað eigum við nú að gera, Búkolla mín?"

„Taktu hár úr hala mínum, og leggðu það á jörðina," segir hún.

Síðan segir hún við hárið: „Legg ég á, og mæli ég um, að þú verðir að svo stóru fjalli, sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi."

Varð þá hárið að svo háu fjalli, að karlsson sá ekki nema upp í heiðan himininn.

Þegar skessan kemur að fjallinu, segir hún: "Ekki skal þér þetta duga, strákur. Sæktu stóra borjárnið hans föður míns, stelpa!" segir hún við minni skessuna. Stelpan fer og kemur með borjárnið. Borar þá skessan gat á fjallið, en varð of bráð á sér, þegar hún sá í gegn, og tróð sér inn í gatið, en það var of þröngt, svo hún stóð þar föst og varð loks að steini í gatinu, og þar er hún enn.

En karlsson komst heim með Búkollu sína, og urðu karl og kerling því ósköp fegin.

- - - - - - - - - - - - - - - - -

Trunt, Trunt og Tröllin í fjöllunum
Einu sinni voru tveir menn á grasafjalli. Eina nótt lágu þeir báðir í tjaldi saman. Svaf annar, en hinn vakti. Sá þá hinn er vakti, að sá, sem svaf, skreið út. Hann fór á eftir og fylgdi honum, en gat naumast hlaupið svo, að ekki drægi sundur með þeim. Maðurinn stefndi upp til jökla. Hinn sá þá, hvar skessa mikil sat uppi á jökulgnípu einni. Hafði hún það atferli, að hún rétti hendurnar fram á víxl og dró þær svo upp að brjóstinu, og var hún með þessu að heilla manninn til sín. Maðurinn hljóp beint í fang henni, og hljóp hún þá burt með hann.

Ári síðar var fólk úr sveit hans á grasafjalli á sama stað. Kom hann þá til þess og var fálátur en ábúðarmikill, svo varla fékkst orð af honum. Fólkið spurði hann, á hvern hann tryði, og sagðist hann þá trúa á guð.

Á öðru ári kom hann aftur til sama grasafólks. Var hann þá svo tröllslegur, að því stóð ótti af honum. Þó var hann spurður, á hvern hann tryði, en hann svaraði því engu. Í þetta sinn dvaldi hann skemur hjá fólkinu en fyrr.

Á þriðja ári kom hann enn til fólksins, var hann þá orðinn hið mesta tröll og illilegur mjög. Einhver áræddi þó að spyrja hann að, á hvern hann tryði, en hann sagðist trúa á „trunt, trunt og tröllin í fjöllunum" og hvarf síðan. Eftir þetta sást hann aldrei, enda þorðu menn ekki að vera til grasa á þessum stað nokkur ár eftir.

(Þjóðsagnasafnið Rauðskinna)

- - - - - - - - - - - - - - - - -

Skessan og Vermaðurinn (Þakklátar tröllamæður)
Einu sinni fór einn Norðlendingur ferða sinna til aflafanga á Suðurnes. Fór hann stytsta veg nálægt Arnarvatnsheiði og gjörði þoku með illviðri og kom yfir hann villa svo hann vissi ekki hvar hann var áleiðis. Urðu fyrir honum jöklar og óvegir.

Fann hann loks við björg hellir sem hann fór inn í og þókti nú vel úr ráðast hvað sem eftir kæmi. Tók hann bagga sína ofan og gaf hestum sínum hey. Fór hann að leita lengra inn og sá skímu innar frá sér og ámátlegt ýlfur.

Fór hann - nokkuð óttasleginn - að gá betur að; sá hann þá pott á hlóðum og barn í fleti ekki ásjálegt. Fór hann til baka, leysti til mals síns, tók stykki af kjöti og færði krakkanum. Það fór að naga bitann og þagnaði.

Gengur hann burt til hesta sinna; fyllir þá eitthvað hellirsdyrnar og verður honum bilt við. Kemur þar inn skersa mjög stór með silungakippu stóra á baki og gengur inn hjá hestunum og kastar af sér byrðinni heldur óstefnlega og steðjar inn til krakkans, kemur aftur með stilltara fasi og þakkar honum fyrir krakkann sinn, býður honum að koma nær hlýindum og tala við sig. Hann gjörir svo.

Tekur þá kerling heila silunga og lætur í pottinn. Hann sagði henni farast óverklega; tók hann þá einn silunginn og slægir hann og lætur hann brytjaðan í pottinn. Hún kvaðst ekkert eggjárn eiga; hann gefur henni fiskkníf sinn og þókti henni vænna um en þótt gull væri.

Þegar soðið var gaf fála honum nógan silung því hún kvaðst verða að veiða á hvurjum degi, annað væri ekki til að lifa á.

Svo var hann hjá henni í þrjár nætur og fór þá að búa sig til ferða, en kerling sagði honum nú mundi koma harður vetur; skyldi hann - þegar hann kæmi á Suðurnes - sleppa hestum sínum í eitt pláts sem hún tilnefndi og hugsa ekki um þá fyr en á krossmessu, þá skyldi hann vitja þeirra á sama stað.

Hann gjörði þetta og fann þá svo feita að þar fundust ekki hestar svo feitir þó gefnir væri eða aldir við hús.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

- - - - - - - - - - - - - - - - -

Gilitrutt (Ævintýri um tröllskap)
Einu sinni bjó ungur bóndi austur undir Eyjafjöllum. Hann var ákafamaður mikill og starfsamur. Þar var sauðganga góð, sem hann var, og átti bóndi margt fé. Hann var nýkvæntur, þegar þessi saga gjörðist. Kona hans var ung, en duglaus og dáðlaus. Hún nennti ekkert að gjöra og skipti sér lítið af búinu. Þetta líkaði bónda mjög illa, en gat þó ekki að gjört. Eitt haust fékk hann henni ull mikla og bað hana að vinna hana til vaðmála um veturinn, en konan tók ekki líflega undir það. Leið svo fram á vetur, að konan tók ekki á ullinni, og ámálgaði þó bóndi það oft.

Einu sinni kemur kerling ein heldur stórskorinn til konunnar og bað hana að greiða eitthvað fyrir sér. "Geturðu unnið nokkuð fyrir mig í staðinn?" segir konan. „Til er það," segir kerling," eða hvað á ég að vinna?" „Ull til vaðmála," segir konan. „Fáðu mér hana þá," segir kerling. Konan tekur þá ákaflega stóran ullarpoka og fær henni. Kerling tekur við sekknum, snarar honum á bak sér og segir: „Ég skal koma með voðina á sumardaginn fyrsta." „Hvað viltu hafa í kaup?" segir konan. „Það er nú ekki mikið," segir kerling; „þú skalt segja mér nafn mitt í þriðju gátu, og erum við þá sáttar." Konan játti því, og fer nú kerling burtu.

Líður nú fram veturinn, og spyr bóndi hana oft, hvar ullin sé. Hún segir hann það engu skipta, en hann skuli fá hana á sumardaginn fyrsta. Bóndi lét sér fátt um finnast, og líður nú fram á útmánuði. Þá fer konan að hugsa um nafn kerlingar, en sér nú engin ráð til að komast eftir því. Varð hún nú áhyggjufull og hugsjúk af þessu. Bóndi sér, að henni er brugðið, og bað hana segja sér, hvað að henni gangi. Hún sagði honum þá upp alla sögu. Var þá bóndi hræddur og segir, að nú hafi hún illa gjört, því þetta muni tröll vera, sem ætli að taka hana.

Einu sinni seinna varð bónda gengið upp undir fjallið, og kom hann á grjóthól einn stóran. Hann var að hugsa um raunir sínar og vissi varla af sér. Þá heyrist honum högg í hólnum. Hann gengur á hljóðið og kemur að smugu einni. Sér hann þá, hvar kona ein heldur stórvaxin situr að vef. Hefur hún vefinn milli fóta sér og slær hann mjög. Hún kvað fyrir munni sér þetta: „Hæ, hæ og hó, hó. Húsfreyja veit ei, hvað ég heiti; hæ, hæ og hó, hó. Gilitrutt heit ég, hó, hó. Gilitrutt heiti ég, hæ, hæ og hó, hó." Þetta lét hún alltaf ganga og sló vefinn í ákafa. Bóndi varð glaður við og þóttist vita, að þetta mundi vera kerling sú, sem hafði fundið konu hans um haustið. Hann fer síðan heim og ritar hjá sér á miða nafnið Gilitrutt. Ekki lét hann konu sína heyra það, og kom nú hinn síðasti vetrardagur. Þá var húsfreyja mjög angurvær, og fór hún ekki í klæði sín um daginn. Bóndi kemur þá til hennar og spyr, hvort hún viti nafn vinnukonu sinnar. Hún kvað nei við og segist nú ætla að harma sig til dauða. Bóndi segir, að þess þurfi nú ekki við, fékk henni blað með nafninu á og sagði henni upp alla sögu. Hún tók við blaðinu og skalf af hræðslu, því hún óttaðist, að nafnið kynni að vera rangt. Biður hún bónda að vera hjá sér, þegar kerling komi. Hann segir: „Nei, og varstu ein í ráðum, þegar þú fékkst henni ullina, svo það er best að þú gjaldir ein kaupið." Fer hann burtu síðan.

Nú kemur sumardagurinn fyrsti, og lá konan ein í rúmi sínu, en enginn maður annar var í bænum. Heyrir hún þá dunur miklar og undirgang, og kemur þar kerling og er nú ekki frýnileg. Hún snarar inn á gólfið vaðmálsstranga miklum og segir: „Hvað heiti ég nú, hvað heiti ég nú?" Konan var nær dauða en lífi af ótta og segir: "Signý?" "Það heiti ég, það heiti ég, og gettu aftur, húsfreyja," segir kerling. „Ása?" segir hún. Kerling segir: „Það heiti ég, það heiti, og gettu enn, húsfreyja!" „Ekki vænti ég, að þú heitir Gilitrutt?" segir þá konan. Kerlingunni varð svo bilt við þetta, að hún datt kylliflöt niður á gólfið, og varð þá skellur mikill. Rís hún upp síðan, fór burtu og sást aldrei síðan. Konan varð nú fegnari en frá megi segja yfir því, að hún slapp frá óvætti þessum með svona góðu móti, og varð hún öll önnur. Gjörðist hún iðjusöm og stjórnsöm og vann æ síðan sjálf ull sína.

Skrifaðu mér bréf...
Nánar
Kíktu á Facebook síðuna mína! Vertu vinur!