Bréfasafn
Hlekkir
Bréf 31-35
Bréf frá Rán Ísold
18.12.08

Halló kæra skessa.
Ég fékk hugmynd þessa.
Að yrkja ljóð handa þér.
Af því að ég er nú hér.

Halló, ég heiti Rán Ísold og er 13 ára. Maður er aldrei of gamall til að skrifa til skessu. En mér langaði bara að segja, með hverju tannburstar þú þig?

Takk fyrir þetta skemmtilega ljóð Rán Ísold. Það er maður hér á Berginu sem lánar mér alltaf  bílþvottakústinn sinn á kvöldin svo ég geti burstað hí, hí.

Skessusaga frá Ástu Rún, 5 ára
21.12.08

Í skólanum
Einu sinni var skessan að fara inn um gluggann í skólann. En hún náði því ekki út af andlitinu. Svo ætlaði hún að byrja í skóla, en hún gat það ekki út af hún var svo stór. Þá fór skessan grátandi heim í hellinn sinn. Svo kom önnur stór Sigga skessa og þær ætluðu að vera vinkonur. Skessan var 3 og hálfs árs Sigga var 1 og hálfs árs. Þær áttu afmæli á sama tíma. Svo var einn strákur hrekkjusvín og var alltaf að hlægja að skessunni. Svo ætlaði hann að hætta að vera hrekkjusvín og hann gaf öllum piparkökur með lakkrís og ætlaði að vera góður.

Jahá, það eru nefnilega allir svo góðir inn við beinið.

Bréf frá Unu Maríu, 10 ára
22.12.08

Kæra skessa, Mér þykir gaman að þú skulir vera flutt í Reykjanesbæ. Og ég segi bara: Velkomin! Svarti hellir er mjög huggulegur! Veistu hvað? Ég þekki hana Herdísi Egilsdóttur sem skrifar bókina um þig. Hún er amma vinkonu minnar! Ég er mjög hrifin af bókunum um þig og hana Siggu. Þykir þér ekki gott að búa við sjóinn? Ég bý líka við sjóinn. Takk fyrir heimboðið.

Takk fyrir bréfið kæra Una María. Mér finnst alveg dásamlegt að búa við sjóinn. Útsýnið er frábært og svo er bæði stutt fyrir mig að baða mig, fá mér sundsprett og eitthvað í soðið. Þetta gæti bara ekki verið betra.

Bréf frá; Patreki, Sólveigu Maríu, Róberti, Nadíu og Eyjólfi.
01.05.09

Komið þið sæl kæru vinir mínir Patrekur Einar, Sólveig María, Róbert Marinó, Nadía og Eyjólfur Pálmi.

Fyrst vil ég byrja á að þakka ykkur fyrir þetta skemmtilega bréf sem þið skrifuðuð og þessar fallegu myndir sem þið teiknuðuð handa mér. Ég hef aldrei áður fengið svona pakka, mikið eruð þið góð. Svo var hann líka svo fallega skreyttur, með alls kyns litum og skrautlegum borðum, takk kærlega fyrir.

Mér finnst líka svo skemmtilegt að þið séuð í skessuhópi í leikskólanum vegna þess að ég er einmitt skessa. Má ég þá kannski vera með ykkur í hópi og vera vinkona ykkar? Þið eruð aldeilis búin að vera dugleg í leikskólanum ykkar, þið hafið hlustað á alls kyns skessusögur og fundið fótsporin mín. Svo eruð þið líka bara svo góð og hafið skrifað svo margt fallegt um mig eins og að ég sé frábær og sæt og flott og krúttleg. Nú líður mér svo ósköp vel í hjartanu mínu vegna þess að nú veit ég að þið eruð þið vinir mínir.

Næst ætla ég að svara spurningunum sem þið senduð mér eins vel og ég get.

• Áttu börn?
Ég á engin börn sjálf en ég á fullt af börnum fyrir vini. Börn eru bestu vinir mínir eins og til dæmis þið. Svo er hún Sigga vinkona mín, sem þið hafið heyrt um í sögunum, næstum eins og systir mín vegna þess að við höfum þekkst svo lengi og erum svo góðar vinkonur.

• Hvar pissar þú?
Þið vitið að þegar þið sturtið niður úr klósettinu ykkar þá fer pissið beina leið út í sjó. Vegna þess að ég á heima svo ofsalega nálægt sjónum, þá pissa ég bara beint út í sjó. Ég klofa bara yfir sjóvarnargarðinn og pissa á bak við hann. Þá sér mig enginn, nema kannski bátarnir sem sigla framhjá.

• Áttu ísskáp?
Nei, ég þarf ekki ísskáp vegna þess að það er dálítið kalt í hellinum mínum. En ef ég vil kæla eitthvað sérstaklega vel, þá set ég það í poka sem ég læt síga út í sjó og þá helst það alveg ísjökulkalt. Svo geymi ég líka bara matinn minn í sjónum og þegar ég verð svöng geng ég bara út í sjó og gríp mér fisk til að borða. Kannski fæ ég mér humar um jólin því hann er svo mikill herramannsmatur.

• Áttu glas og skáp?
Nei, ekki ennþá en kannski gefur mér einhver svoleiðis í jólagjöf. Þegar ég verð þyrst þá fer ég bara út á smábátahöfnina og fæ mér sopa úr vatnsslöngu sem trillukarlarnir nota til að skola bátana og fiskikörin. Stundum gefa karlarnir mér líka kaffisopa ef vel liggur á þeim.

• Hvað ertu að gera á daginn?
Það er nú ýmislegt skal ég segja ykkur. Stundum fer ég í heilsubótargöngu (þið hafið nú séð sporin eftir mig), stundum horfi ég á hvali út um gluggann minn, stundum fer ég út í sjó að veiða fisk og svo koma alltaf svo margir að heimsækja mig að mér leiðist aldrei. Stundum verð ég líka ofsalega þreytt og þá þarf ég að leggja mig í stólnum mínum og hvíla mig dálítið.

• Áttu disk til að horfa á?
Já, bara svona pappadisk með mynd af Bangsímon á. Hann fékk ég einu sinni þegar vinur minn sem átti afmæli kom með köku handa mér. Mér fannst diskurinn svo fallegur að ég horfi alltaf á hann í smástund á hverjum degi.

Jæja, nú eru víst að koma gestir til mín, mér sýnist þetta vera sjálfur bæjarstjórinn, þá er nú best að koma sér vel fyrir í stólnum og greiða á sér lubbann svo ég verði nú sæt og fín. Kannski get ég boðið honum upp á rækjur sem ég er nýbúin að veiða.

Að lokum vil ég þakka ykkur enn og aftur fyrir pakkann frá ykkur mínir kæru vinir.

Bestu kveðjur úr hellinum,
Skessan


P.s. Ég ætla að biðja bæjarstjórann að senda ykkur þetta bréf í tölvupósti svo það komist hratt og vel til ykkar.

Kolbrún Harpa
21.09.09

Hæ skessa,
Hvernig er að búa þarna í hellinum? Ertu með gott útsýni? Ég er nokkrum sinnum búin að koma í hellinn þinn.
Hvar sefurðu? Kanntu að prumpa? Hvenær sefurðu? Þú átt svo fínan kjól.
Kveðja

Takk fyrir bréfið Kolbrún Harpa. Ég skal segja þér það að ég er afskaplega ánægð í hellinum mínum og mér finnst dásamlegt að geta horft út á smábátahöfnina og fylgst með sjómönnunum koma með fisk að landi.

Ég sef auðvitað í rúminu mínu fína og það geri ég á nóttunni. Ég legg mig líka oft í ruggustólnum á daginn. Þá hefur mér verið sagt að ég prumpi stundum en ég held að það sé bara einhver vitleysa. Þetta er örugglega bara garnagaul.

Skrifaðu mér bréf...
Nánar
Teikningar til mín...
Nánar
Bréfasafn
Kíktu á Facebook síðuna mína! Vertu vinur!