Bréf 66-70
|
Freyja Kristinsdóttir, 7 ára |
|
Sæl Skessa
Það er langt síðan ég sendi þér bréf síðast. Núna er ég í útlöndum en kannski verð ég komin aftur til Íslands þegar þú svarar bréfinu mínu.
Mig langar að heimsækja þig bráðum. Ég sá að gamli leikskólinn minn, Efstihjalli, var að senda þér bréf í vor.
Kannski kem ég bara aftur á Ljósanótt og fæ hjá þér lummur, eins og síðast þegar ég heimsótti þig. Lummurnar þínar eru mjög góðar.
Kær kveðja, Freyja
Sæl og blessuð Freyja mín og mikið er gaman að fá aftur frá þér bréf. Ó, hvað það er spennandi að þú skulir vera í útlöndum, þangað hef ég nú aldrei komið. Það er þó aldrei að vita nema ég taki mér góðan sundsprett einhvern daginn og kíki kannski til Grænlands eða kannski bara til Vestmannaeyja.
Jú, þau komu hérna í vor börnin á Efstahjalla og þá var nú kátt á hjalla - mikið voru þau skemmtileg börnin.
Já, þú skalt endilega koma aftur í heimsókn til mín á Ljósanótt. Ég var einmitt að skrifa í morgun á fésbókarsíðuna mína að ég þyrfti að fara að finna lummuuppskriftina mína til að undirbúa mig fyrir Ljósanótt - því þá verður sko gaman!
Bestu kveðjur til þín og hafðu það nú gott í útlöndunum, Skessan
|
Ástrós Aþena Sigursveinsdóttir, 6 ára |
|
Hæhæ Skessa. Ég vil spyrja þig nokkrar spurningar. Áttu bækur? Hvað ertu gömul? Litla systir mín,Gunnhildur þekkir þig ekki,en við komum að heimsækja þig bráðum. Gunnhildur er 1 árs. Unnur,kona Einars,afa míns á Seyðisfirði fór með bók sem hét Algjör Sveppi og leitin að Villa í bókaverslun í Keflavík. En hún vissi ekki,að það var of langt að keyra í Keflavík! Og pabbi er búin að kaupa Algjör Sveppa og leitin að Villa handa mér:) Þú færð pakka hjá mér. En ég er ekki enn kominn með hann.
Sæl aftur Ástrós mín, Þú ert svo ósköp dugleg að skrifa mér að ég verð bara að safna bréfunum þínum saman og svara þeim svo í einu. Veistu það, að ég á barasta engar bækur, það hafa bara verið skrifaðar um mig margar bækur sem heita Sigga og skessan. Það er nú ekki leiðinlegt að vera aðal söguhetjan í heilum bókaflokki. Ef ég vissi nú hvað ég væri gömul, þá gæti ég kannski haldið afmælisveislu, en ég hef bara ekki hugmynd um hvað ég er gömul, ég hef allavega ekki haldið upp á afmælið mitt í 200 ár. Ég hlakka mikið til að hitta hana Gunnhildi systur þína, þú verður að útskýra fyrir henni að ég er voða góð (sum lítil börn verða nefnilega hrædd við mig). Jiiii, hvað ég er spennt að fá frá þér pakka, mikið ert þú hugulsöm.
Bestu kveðjur, skessan
|
Sóley Kristjánsdóttir, 10 ára |
|
Finnst þér nokkuð gaman að vera í hellinum ? Mér mundi ekki finnast það, því að ég er myrkfælin. En ef þú værir með mér væri í lagi :) Ég kem í heimsókn til þín á ljósanótt í lummur mér hlakkar til.;) hvað ertu stór ? :) hvað ertu gömul ? :) hvenar áttu afmæli ? :) Ég hef aldrei komið til þín er gaman ?:) bæbæ sóley ;)
P.S. Vonandi svarar þú öllum spurningunum mínum sjáumst á ljósanótt bæ ! ;)
Sæl og blessuð Sóley, Ég vona að lummurnar mínar hafi bragðast vel, mér sýndist það á svipnum á þér. Veistu það að mér leiðist aldrei í hellinum mínum, ég fæ svo margar heimsóknir þangað, sem er nú dálítið annað en þegar ég bjó í fjallinu, þar sem ég hitti ekki nokkurn mann eða tröll, fyrr en Sigga mín birtist allt í einu. Nú ertu búin að sjá hve stór ég er, ég er dálítið stór finnst þér ekki? En veistu, ég hef ekki hugmynd um hve gömul ég er, ég man ekkert eftir því þegar ég fæddist og ég er búin að vera svo lengi ein, að hafi ég vitað það, þá er ég löngu búin að gleyma því. En ég er ung í anda og það skiptir jú mestu.
Kveðja, Skessan.
|
Rúnar Mar Regínuson, 4 ára |
|
Ég kom í hellinn þinn í dag og setti bréf í póstkassann til þín. Það var gaman að vera með þér í dag, ég vona að við hittumst aftur. Ég vona að við verðum bestu vinir og prófum að tala saman. Ég vona að ég hitti litlu skessuna líka aftur og geti talað við hana. Ég vona að við getum farið einhverntíman í göngutúr með ömmu minni og afa. Kannski getur þú einhverntíman stokkið út í sjóinn og bjargað mér ef ég er í skipi á sjónum rétt hjá þér. Vonandi getur skessan synt í sjónum. Ég vona að ég geti einhverntíman prófað að fara út að hjóla með þér. Ég hlakka til að sjá þig fljótlega aftur. Ferðu einhverntíman út úr hellinum, í göngutúr eða í rúmið þitt? Mig langar svo að sjá það. Kveðja, Rúnar og Amma
Komdu sæll og blessaður Rúnar minn og takk fyrir heimsóknina, mikið var gaman að sjá þig. Mikið hlakka ég nú til að lesa bréfin úr póstkassanum mínum og það verður spennandi að sjá þitt. Já, þú hefur hitt hana Fjólu tröllastelpu, vinkonu mína. Fannst þér hún ekki skemmtileg? Það er svo gaman af henni, vegna þess að hún er alltaf svo ánægð með sjálfa sig. Ég vildi að allir væru eins ánægðir með sjálfa sig eins og hún Fjóla, þá væru allir svo glaðir. Ég vona að minnsta kosti að þú sért ánægður með þig Rúnar minn. Ég myndi svo sannarlega stökkva út í sjó og reyna að bjarga þér ef þú værir á sökkvandi skipi úti í sjó. Veistu, ég bjargaði einu sinni litlum báti úr sjávarháska þarna úti á sjónum og það var þá sem bæjarstjórinn í Reykjanesbæ bauð mér að flytja í hellinn minn og búa í Reykjanesbæ. Það var það besta sem gat gerst, því nú hitti ég svo mikið af skemmtilegum krökkum. Ég fer einstaka sinnum í göngutúr en bara á nóttunni þegar fáir eru á ferli, því annars er ég svo hrædd um að stíga á einhvern eða valda umferðaröngþveiti. Hlakka til að sjá þig aftur. Kveðja frá Skessunni.
|
Helen María og Bergdís Brá |
|
Sæl og blessuð Skessa
Ég og systir mín höfum komið nokkru sinnum til þín. Okkur finnst það alltaf jafn gaman. Við erum mjög forvitnar og langar að fá að vita hvað þú borðar? Í sumum sögum segir að skessur og tröll borði börn, en okkur finnst það mjög ólíklegt því þú ert svo góð alltaf þegar við komum í heimsókn.
Við ætlum að heimsækja þig um helgina og gefa þér teikningar sem við höfum teiknað. Takk fyrir að bjóða okkur í heimsókn til þín.
Kveðja Helen María og Bergdís Brá
Sælar systur,
Loksins get ég svarað ykkur, haldiði barasta ekki að tölvan mín hafi bilað og ég gat ekki skrifað stafkrók á síðuna mína, svei mér þá. Þakka ykkur kærlega fyrir fallegu myndina sem þið senduð mér, með þessu fína bláa og bleika hjarta. Þú ert ofsalega dugleg að teikna.Þú spurðir líka hvað ég borðaði. Veistu að mér þykja börn voðalega góð en alls ekki til að borða heldur sem vinir mínir. Börn eru besta fólk. Hins vegar finnst mér voða gott að borða nýveiddan fisk úr Faxaflóanum og svo lummur auðvitað. Verið þið alltaf velkomnar til mín.
Ykkar vinkona Skessan
|