Bréfasafn
Hlekkir
Bréf 61-65
Kolbrún 7 ára
22.03.11

Hæ hvernig hefuru það? Ertu í alvörunni til? og ertu góð?
Ertu búin að fá marga krakka í heimsókn?

Bæ Kolbrún

Sæl Kolbrún mín og takk fyrir bréfið. Jú, ég er til í alvörunni (annars gæti ég ekki verið að skrifa til þín bréf, er það nokkuð?) Hí hí. Svo er það spurningin hvort ég er góð. Ég reyni alltaf eins og ég get að vera góð en stundum gleymi ég mér og er þá kannski dálítið óþekk eins og þegar ég nenni ekki að bursta tennurnar og svoleiðis en ég er alltaf góð við öll börn, því þau eru vinir mínir. Ég er búin að fá óteljandi mörg börn í heimsókn til mín. Ég taldi sjálf upp í 87 en þá gafst ég upp (því ég kann ekki að telja hærra, uss ekki segja neinum) en það eru sko búin að koma fullt af börnum síðan.

Bestu kveðjur, Skessan

Tómas Funi, 3 ára
29.03.11

hæhæ ég vil spurja þig nokkra spurningar :)
1.Getur þú talað?
2.það á að fara að sofa á nóttunni!
3.Hvernig nammi fynnst þér gott ?
4.Hvað heitir þú?
5.hvað ertu gömul ?
Bestu kveðjur Tómas Funi !
hlakka til að sjá þig næst :)

Sæll Tómas Funi minn og takk fyrir bréfið,
1. Já, ég get svo sannarlega talað. Ég tala svo mikið við sjálfa mig að ég þarf stundum að leggja mig af þreytu og þá hrýt ég víst voða hátt er mér sagt (ég trúi því samt ekki sjálf).
2. Já, þú meinar það. Á maður sem sagt ekki að sofa á daginn? Alltaf lærir maður nú eitthvað nýtt!
3. Er til nammi sem er ekki gott??
4. Skessa.
5. Ef ég vissi það nú elsku karlinn minn, þá myndi ég glöð segja þér það, en ég er ekki viss um að ég kynni að telja upp í svo háa tölu.
Hlakka líka til að sjá þig kæri vinur. Kveðja, Skessan.

Leikskólinn Efstihjalli, 5 og 6 ára
27.05.11

Halló. Við ætlum að heimsækja þig á mánudaginn. Við komum með rútu og hlökkum mikið til. Við erum í Kópavogi og það er gaman í leikskólanum. Er Sigga vinkonan þín?

Við erum mjög spennt að koma. Kær kveðja,
allir í elsta hóp á Kattholti.

Halló krakkar mínir. Jiii, hvað ég er spennt að hitta ykkur - og þið ætlið að koma alla leið úr Kópavogi til að heimsækja mig. Mikið verður gaman að sjá ykkur. Kemur hann Emil kannski með ykkur, þið vitið, hann Emil í Kattholti? Hann er nú dálítið uppátækjasamur strákur, hí hí.

Jú, hún Sigga er besta vinkona mín. Ég var búin að vera alein svo lengi í fjöllunum þegar ég kynntist henni Siggu og hún hefur verið mér svo góð blessunin. Það var hún sem kenndi mér hvað börn eru gott fólk.

Bestu kveðjur til ykkar kæru vinir mínir á Efstahjalla :-)

Ástrós Aþena Sigursveinsdóttir, 6 ára.
15.07.11

Sæl Skessa,ég heiti Ástrós Aþena og er 6 ára.  Ég á  heima á Lækjamótum í Sandgerði.  Hugrún,frænka mín er að fara að gista hér á mánudaginn. Hún á heima á Seyðisfirði.

Sæl og blessuð Ástrós Aþena,
Mikið er gaman að fá bréf frá þér alla leið úr Sandgerði. Ég er viss um að þar er gott að búa. Þið eigið svo fínan grunnskóla og góða kennara - ég þekki nefnilega suma þeirra :-)
Ég bið kærlega að heilsa henni Hugrúnu frænku þinni og vonandi kemurðu með hana í heimsókn til mín.

Bestu kveðjur, Skessan

Ástrós Aþena Sigursveinsdóttir, 6 ára
21.07.11

Hæ hæ Skessa!  Ég ætla núna að taka upp blað og teikna allt það sem ég kann að teikna fyrir þig.
Ég ætlaði bara að spyrja:Áttu bækur?
Ég er í Reykjavík hjá ömmu.  Sástu hana Amelíu Rún vinkonu mína?  Fannst þér hún ekki glæsileg?

Sæl og blessuð aftur Ástrós Aþena mín og takk fyrir bréfin frá þér.
Ég vona að það sé nú allt gott að frétta úr Sandgerði og að það hafi verið gaman hjá ykkur Hugrúnu frænku þinni.
Það væri nú gaman ef þú kæmir með eina fína mynd handa mér og settir hana í póstkassann minn í hellinum mínum, því þá væri aldrei að vita nema hún birtist hérna á síðunni minni við tækifæri. Það væri nú skemmtilegt.
Ég bið kærlega að heilsa henni ömmu þinni og ég vona að hún baki nú lummur handa þér (ég baka nefnilega stundum lummur við sérstök tækifæri :-)
Já, og mikið er hún fín hún Amelía Rún, vinkona þín - það er gott að eiga góða vini.

Bestu kveðjur, Skessan

 

Skrifaðu mér bréf...
Nánar
Teikningar til mín...
Nánar
Bréfasafn
Kíktu á Facebook síðuna mína! Vertu vinur!